Eftir Steinar Berg

Þessi vefsíða og skrif eru tilkomin vegna ummæla Bubba Morthens í þættinum Popp- og rokksaga Íslands sem sýndur var í RÚV þann 13. mars 2016. Þar hélt hann því fram að ég hefði níðst á sér með sviksamlegum hætti í upphafi ferils síns. Ég mótmælti þessu á Facebook en við það tvíefldist Bubbi í aðdróttunum sínum. Ég ætlaði að láta kyrrt liggja en þegar frá leið sárnaði mér óumræðilega þessi svívirðilega tilraun til þess að sverta mannorð mitt.
Málið er að ég er afar stoltur af ferli mínum sem útgefandi og framlagi mínu til íslenskrar tónlistarsögu. Þessi þáttur kemur oft á dag við sögu í lífi mínu og starfi í Fossatúni. Þúsundir erlendra ferðamanna, sem árlega sækja okkur hjón heim, eru ótrúlega vel upplýstir um fortíð mína og sækjast eftir frekari návistum við þennan kall, hvers gullplötur og plötualbúm eru á veggjum og plötusafn í kvöldverðarsalnum. Það er kannski þess vegna sem aðdróttun Bubba Morthens hefur reynst mér þungbær og óásættanleg. Mannorð mitt er mér einfaldlega afar dýrmætt og ég er minntur á það daglega. Ég hef því ákveðið að sækjast eftir því að ummæli Bubba Morthens verði dæmd dauð og ómerk og að RÚV axli sína ábyrgð samkvæmt íslenskum lögum.
Aðeins um mig
Ég öðlaðist óslökkvandi tónlistaráhuga í æsku og nýtti mér alla þá möguleika sem þá voru fyrir hendi til að fylgjast með því sem var að gerast, tók upp allt sem ég gat úr gömlu Gufunni til að eiga á segulbandi, hlustaði á Kanann og Radio Luxemburg, eyddi sumarhýrunni í plötukaup, sótti bókabúðir og las þar og keypti oft Melody Maker, New Musical Express og Sounds. Útskrifaðist úr Versló ´71 og fór að vinna í nýstofnaðri Hljómdeild Faco. Varð verslunarstjóri 19 ára gamall og rak þá deild í 4 ár. Hætti eftir að ég ákvað að gefa út Sumar á Sýrlandi, sem leiddi til stofnunar Steina hf., sem varð á næstu árum leiðandi fyrirtæki í innflutningi erlendra platna og útgáfu íslenskra. Innflutningurinn var ábatasamur en útgáfa íslenskra platna var afar áhættusöm. Munurinn lá í því að við fengum álagningu

Mynd tekin af RAX fyrir Morgunblaðið í desember 1981.
af fyrsta selda eintaki innfluttra platna en ekki fyrr en eftir að hafa selt 2000–5000 af íslenskum útgáfum.
Ég var ekki einn, var heppinn með samstarfsmenn og má þar t.d. nefna Jónatan Garðarsson, Gunnlaug Sigfússon, Pétur Kristjánsson, Kjartan Guðbergsson og Ásgeir Eyþórsson, allir annálaðir tónlistaráhugamenn. Samt sem áður tókst fyrirtækinu aldrei að láta heildarútgáfu nýrra íslenskra platna skila hagnaði innan ársins.
Steinar hf. varð því miður gjaldþrota 1993 og við tók Spor ehf. Eftir að ég seldi hlut minn í Spori árið 1998 tók ég við tónlistarútgáfu og innflutningi Skífunnar ehf. og varð svo framkvæmdastjóri tónlistarsviðs Norðurljósa ehf., en sagði upp störfum þar í lok árs 2001 og hætti í mars 2002.
Þá höfðum við hjón keypt jörðina Fossatún með því markmiði að hefja þar ferðaþjónusturekstur. Það varð og er svo enn. Allan tímann sem ég rak eigið fyrirtæki greiddi ég mér laun sem voru langt undir sambærilegum störfum framkvæmdarstjóra lítilla fyrirtækja. Aldrei greiddi ég mér arð út úr eigin rekstri. Ef hagnaður varð fór tekjuafgangur í frekari uppbyggingu fyrirtækisins.
Ég og þeir sem störfuðu með mér hjá Steinum hf. glöddumst endalaust yfir því að geta komið góðri tónlist til Íslendinga með innflutningi hljómplatna og tónleikum erlendra sveita. Það komst samt ekki í hálfkvisti við að vera þátttakendur í að koma íslensku tónlistarfólki á framfæri og styðja til góðra verka. Ekki síst að opna fyrstu glufuna út í heim fyrir íslenskt tónlistarfólk.
Aðeins um útgáfu íslenskra hljómplatna og markaðinn
Í grein og úttekt sem Árni Matthíasson gerði um íslenskan tónlistarmarkað og birtist í Morgunblaðinu 21. október 1995 segir:
„Af þessu má ráða að upptökukostnaður er all breytilegur og er iðulega helsti kostnaðarþáttur í útgáfu. Í poppheiminum er algengt að upptökukostnaður hlaupi á hundruðum þúsunda, því algengt er að það taki um og yfir 200 tíma í hljóðveri að taka upp slíka plötu og þegar allt sé talið þurfi að selja 3–5.000 eintök til að hafa upp í kostnað.“
Þetta var þegar stafræn tækni hafði hafið innreið sína í hljóðvinnslu og upptökukostnaður og annað vinnsluferli var farið að lækka, eins og reyndar kemur líka fram í greininni.

Úr grein Árna Matthíassonar í Mbl. 21. október 1995.
Skýrsla Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins 1997
Í skýrslu sem gerð var fyrir Iðnaðar- og viðskiptaráðu-neytið: Íslenskur tónlistariðnaður, aukin sóknarfæri, og gefin var út í febrúar 1997, kemur fram að meðaltalssala íslenskra útgáfna ársins 1996 var um 1642 eintök og að útgáfa nýrra platna á Íslandi skilaði árvissu tapi þrátt fyrir að markaðurinn hafi stækkað umtalsvert frá árunum þar á undan vegna geisladiskavæðingar hans. Heildarsala íslensks efnis af heildarmarkaðinum árið 1996 var 274.000 eintök eða rétt um 40% heildarsölunnar.

Úr skýrslu Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins
sem kom út í febrúar 1997.
Staðan var enn verri í upphafi níunda áratugarins þegar Bubbi var að hefja feril sinn. Efnahagsþrengingar voru meiri og árleg sala íslenskra hljómplatna talsvert lægri eða um 120.000–150.000 eintök. Það var viðburður ef einstök plata náði 5000 eintaka sölu. Kostnaðarþátturinn við að gera plötu var samt sá sami hérlendis og erlendis nema hvað Ísland var örmarkaður. Upptökukostnaður vó langþyngst og framleiðslu-kostnaður var allur flóknari og dýrari en síðar varð, þ.m.t. litgreiningar, filmuvinnsla og prentun plötuumslaga, skurður vínylplatna, mastering og gerð pressumóta, útgáfa á tveimur sniðum, LP og kassettu, o.fl.
Aðeins um samstarf okkar Bubba
Bubbi Morthens kom til mín um mitt ár 1980 og falaðist eftir því að ég yrði útgefandi hans. Ég hafði ákveðið frumkvæði að því að drífa í gerð smáskífu, Ha, ha, ha (Rækjureggae), með Utangarðsmönnum til þess að koma efni og erindi bandsins á framfæri strax þó ljóst væri að greiða þyrfti með útgáfunni.
Breiðskífan Geislavirkir kom svo út fyrir jólin en salan stóð ekki undir væntingum og varð aðeins á milli 3000–4000 eintök. Margir eru hissa á því að salan hafi ekki verið meiri vegna fyrirferðar bandsins í fjöl-miðlum og á tónleikum. Árið eftir var svo 12” platan 45 RPM gefin út sem eins og smáskífan árið áður átti að þjóna ákveðnum markaðs-legum tilgangi. Úr því varð ekki, bandið sprakk. Steinar hf. hafði þá m.a. gengið í ábyrgð fyrir hárri upphæð vegna flutnings fólks og tækja í Norðurlandaferð Utangarðsmanna og ég sat uppi með þann

kostnað og sárt ennið. Því var ráðist í að gera safn- og raritís plötuna Í upphafi skyldi endinn skoða, en sú útgáfa gerði ekki meira en að standa undir sér.
Það sem Bubbi sagði þá
Til gamans – ef svo má segja – er hér viðtal við Utangarðsmenn frá þeim tíma sem verið var að taka upp plötuna Geislavirkir þar sem Bubbi svarar fyrir samstarf okkar og segir m.a.:
„En Steinar hefur reynst okkur frábærlega vel. Hann hefur hjálpað okkur í ýmsum persónulegum málum, bara útaf almennilegheitum. Hann hefur verið með ólíkindum almennilegur við okkur og það er ekki til að hafa gullkálfana góða, maðurinn er bara svona vel innrættur.“
Árið 1982 fór Bubbi fram á að Steinar hf. yfirtæki útgáfuréttinn á Ísbjarnarblús sem komið hafði út á merki Iðunnar undir einhvers konar dreifingarsamningi því Bubbi hafði sjálfur greitt kostnaðinn – eða öllu heldur hluta hans, því hitt sveik hann Svavar Gests um, eins og fram

Úr viðtali við Bubba í Vikunni í nóvember 1980.
kemur í umræddum þætti. Sala Ísbjarnarblús hafði verið lítil þó Bubbi hafi stimplað sig inn á markaðinn, ef svo má segja. Hvorki Bubbi né Iðunn lögðu í að panta nýtt upplag. Steinar hf. gerði það, pantaði 1000 eintök til viðbótar þeim 1000 sem upphaflega hafði verið dreift. Það tók nokkur misseri að selja þetta viðbótarupplag.
Aðeins um endalok Utangarðsmanna
Samstarf Utangarðsmanna var alltaf róstusamt. Það var óregla á hlutum, líferni, rekstri og öllu því sem þarf sem undirstöðu fyrir velgengni. Öllu, þ.e., nema tónlistinni.
Að fara á tónleika Utangarðsmanna var skemmtileg upplifun og algjör nýbreytni fyrir nýja (og líka aðeins eldri) kynslóð fólks sem fannst tónlistin skipta miklu og jafnvel öllu. Ég dróst inn í fleiri þætti en bara þann að gefa út plötur með þeim og hljóp til dæmis undir bagga fjárhagslega á ýmsan hátt til að fleyta bandinu áfram. Það stendur nefnilega ekki allt í samningum, þótt menn séu gjarnir að vitna í þá eftir á.
Mikki Pollock skrifaði mér bréf skömmu eftir að Utangarðsmenn voru farnir í sína Skandinavíureisu. Bréfið er ákveðin heimild um það sem gekk á og því fylgir það hér með. Í sjálfu sér skildi ég ekki í fyrstu af hverju Mikki var að senda mér bréf um að hann vildi hætta í Utangarðsmönnum. Eðlileg boðleið hefði verið að láta managerinn/umboðsmann sveitarinnar vita, sem hinsvegar vottaði bréfið eins og sjá má.
Og þó. Ég hafði fjárfest í enskum upptökum með bandinu sem ásamt tónleikaferð þeirra átti að skapa grunn fyrir möguleikum á að sækja fram erlendis. Að

auki hafði ég gengið í ábyrgð fyrir heilmiklum kostnaði vegna ferðalagsins og á annan hátt sýnt í verki stuðning og trú enda hélt ég að menn ætluðu að standa saman í uppbyggingu sameiginlegra hagsmuna, þó einhver tónlistarlegur og persónulegur ágreiningur væri til staðar. Allavega tók þetta bréf af allan vafa um að Utangarðsmenn yrðu ekki langlíf hljómsveit. Og það þurfti ekki geimvísindi til að fatta að ég myndi sitja uppi með fjárhagslega skaðann, sem og varð.
Raunin varð svo að Utangarðsmenn ráku Bubba sem stofnaði Egó og hinir héldu áfram sem Bodies. Báðar þessar hljómsveitir sóttust síðan eftir og fengu samninga við Steina hf. Skyldi það vera út af því að þeim hafi líkað svo illa samstarfið í tvö ár þarna á undan?
Aðeins um samninga, tekjur og sölu
Hvað samninga milli útgefenda og tónlistarmanna varðaði þá studdumst við hjá Steinum hf. við samningsform sem ég hafði fengið hjá Fálkanum, en sá samningur tók mið af samningi bókaútgefenda og rithöfunda. Gerð var kostnaðaráætlun fyrir hverja útgáfu og ætíð var sá kostnaðarþáttur mestur sem tónlistarmenn stjórnuðu eða fóru fram á, þ.e. upptökukostnaður og hönnun umslags. Þetta skipti miklu máli og réðst kostnaður af því hvort hægt var að taka plötu upp á 30 eða 100 eða 200 stúdíótímum og hvort umslag var einfalt svarthvítt eða opnanlegt í lit með plakati, kili eða textablaði o.s.frv.
Í upphafi hljómplötuútgáfu tíðkaðist það ekki að tónlistarfólk fengi greitt vegna sölu platna. Slíkt var kostnaður og áhætta útgefandans en tónlistarmaðurinn naut afrakstursins í þeirri auglýsingu sem vinsælt lag gat skapað og leiddi til aukinna

Glatt á hjalla hjá Steinum hf. í desember 1981 og stillt upp í Madness-stellinguna. Frá vinstri: Steinar Berg, Jónatan Garðarsson, Örn Baldursson, Björn Thoroddsen, Kolbrún Mogensen, Helga Möller og Sveinbjörn Gunnarsson.
tekjumöguleika við dansleikja- og tónleikahald. En þetta breyttist úti í heimi þegar plötur fóru að seljast í milljónum eintaka.
Sölumöguleikar á Íslandi voru samt alltaf og eru enn í ör-stærð og fáránlegt að halda því fram að íslensk tónlistarútgáfa gæti gert menn ríka. Þegar ég tók yfir SG-útgáfuna árið 1989 var þar t.d. ekki greiddur ágóðahlutur af neinum útgáfum nema Ellý og Vilhjálmur fengu 4% og 5% ágóðahlut. Algengur ágóðahlutur í íslenskri tónlistarútgáfu þegar níundi áratugurinn var að ganga í garð var að tónlistarflytjandi fengi 10% til 15% af heildsöluverði eftir að útgáfukostnaði var náð en það gat tekið frá 2000 til 5000 eintaka sölu. Utangarðsmenn fengu sérstaklega hagstæðan samning eða 35% ágóðahlut og auk þess aðrar ívilnanir, svo sem að byrjað var að borga ágóðahlut eftir 2500 eintök þó að það þyrfti 4000 eintök til að ná kostnaði. Einnig var sérstakt að dreifingarkostnaður var reiknaður 10% en ekki 15% eins og tíðkaðist, en dreifingarkostnaður er kostnaður útgefanda vegna húsaleigu, starfsmannahalds og annars umfangs sem þarf til þess að framleiða og selja vöruna og það utanumhald sem fylgir rekstri fyrirtækja.
Þegar kom að því að gera samning við Egó lá sem sagt ljóst fyrir að hvorki Utangarðsmenn né Steinar hf. höfðu riðið feitum hesti tekjulega frá plötusölu Utangarðsmanna. Við þetta má svo bæta að útgáfa annarrar sólóplötu Bubba, Plágunnar, var algjört fíaskó sem skilaði milljónum í tap á núvirði. Bubbi hafði safnað saman mönnum með takmarkaða stúdíóreynslu í Egó, sem voru í annarri vinnu og nú stóð til að biðja þá að einbeita sér að undirbúningi spilamennsku og upptökuvinnu um nokkurra vikna skeið kauplaust.
Utangarðsmenn höfðu haft samning upp á háan ágóðahlut en það skilaði þeim litlu þar sem salan var langt undir væntingum.
Niðurstaðan varð sú í samningum við Egó, að þeir fengju 8% ágóðahlut frá fyrsta seldu eintaki og fyrirfram-greiðslu ágóðahlutarins fyrir 4000 eintaka sölu. Þarna var því lögð fram trygging til handa bandinu í formi fyrirframgreidds ágóðahlutar, sem ekki tíðkaðist almennt hér á landi meðal hljómplötuútgefenda. Þannig tóku Steinar hf. á sig aukaáhættu til að hægt væri að hefjast handa og gefa plötuna út fyrir sumarmál svo að bandið gæti aflað sér tekna með spilamennsku.
Svona samningar eru sem sagt mannanna verk og byggja á því að finna sanngjarnan og sameiginlegan flöt sem fólk vinnur saman á en til viðbótar eru svo alls kyns réttindaleg efni. Samningur Utangarðs-manna, sem sjá má hér í heild, skilaði þrátt fyrir háa ágóðahlutarprósentu ekki miklu til hljómsveitarinnar.
Áhersla Bubba við samningsgerð Egó var síðan sú að liðsmenn fengju tryggingu fyrir væntanlegri vinnu við plötugerðina. Þann samning má sjá hér. Undir hann skrifaði Örn Baldursson fyrir hönd Steina hf. (ég var mikið erlendis á þessum tíma), en samningurinn var afrakstur funda hans og Bubba þar sem þeir fóru yfir alla kostnaðarliði og dæmið var vandlega reiknað út. Bubbi átti því fullan þátt í gerð þessa samnings og allt tal um að hann hefði ekki haft „yfirsýn yfir neitt“ í samningagerðinni er rakið bull.
Bubba er auðvitað frjálst að að gagnrýna gerða samninga, en gagnrýni er ekki marktæk nema hún sé málefnaleg. Það er hins vegar vísvitandi lygi að halda því fram að ég hafi misnotað aðstöðu mína og blekkt hann við samningsgerðina. Það gerði ég aldrei.

Undirskriftir að samningnum við Egó 1982.
Báða samningana í heild sinni má skoða í meðf. PDF-skjölum:
Samningurinn við Utangarðsmenn 1980
ATH: að samningurinn við Utangarðsmenn var gerður fyrir myntbreytingu og samningurinn við Egó eftir hana.
Breyttir tímar
Fyrsta platan með Egó, Breyttir tímar, seldist í rúmum 4000 eintökum um sumarið, sem var afar gott fyrir sumarútgáfu og mikið fagnaðarefni að ná að selja fyrir kostnaði. Ákveðið var að gera aðra plötu fyrir jólamarkaðinn, Í mynd, til að hámarka afrakstur vinsældanna. Sú plata fékk hins vegar blendna dóma og viðtökur urðu ekki samkvæmt væntingum þannig að sala plötunnar varð „aðeins” um 4.500 eintök þegar aðfangadagur jóla rann upp.
Þegar þriðja platan kom út var það í kjölfar ágreinings Bubba við hina meðlimi Egó og átaka hans við starfsmenn Steina hf. (sjálfur var ég erlendis með Mezzoforte og frétti af uppákomum hans á skotspónum). Ekki síst þá gaf Bubbi skít í tónlistarbransann á Íslandi og var á leið til Ameríku þar sem hans biðu allt önnur skilyrði að eigin sögn. Nokkrum vikum eftir útkomu þriðju Egóplötunnar var Bubbi aftur kominn í harkið á klakanum.

Aðeins um möguleika Egó
Því fer fjarri að sölulegur árangur Egó hafi verið borðleggjandi enda voru sölumöguleikar íslenskra hljómplatna eftir að kostnaði var náð afar takmarkaður. Ferill Utangarðsmanna var stuttur og þó að hljómsveitin hafi notið ákveðinnar hylli og verið boðberi breytinga komu vinsældirnar frá jaðri plötukaupenda og tiltölulega þröngu aldursbili.
Þannig náðu Utangarðsmenn ekki að selja nema t.d. tæplega helming þess sem fyrsta Strumpaplatan seldist í. Það var því langt frá því öruggt að hægt væri að ganga að fyrirframgefnum sölulegum árangri þegar ákvörðun um útgáfu Egó-platnanna var tekin. Í viðtali við Vísi 23. janúar 1982, rétt áður en lagt var í fyrstu Egó-upptökurnar, svarar Bubbi Morthens eftirfarandi spurningu blaðamanns: „Áttu von á þvi að Egó komi til með að njóta sömu hylli og Utangarðsmenn sálugu?“

Egó
„Ef ég segi alveg eins og er þá á ég ekki von á því. Það verður ekki fyrr en eftir a.m.k. 10 ár að hljómsveit fær jafn stormandi undirtektir og við fengum. Það hjálpaðist allt að við að stuðla að vinsældum okkar. Slíkt ástand skapast ekki nærri strax aftur.“
Egó gerði enga plötu 1983, en Bubbi gerði Fingraför, sem gekk vel og seldist í yfir 5000 eintökum og þar sem sala á Ísbjarnablús og Plágunni var miklu minni en Fingraför var ákveðið að gera Línudans síðar á árinu, safnplötu fyrir vaxandi kaupendahóp Bubba Morthens. Línudans reyndist síðan sannnefni og útgáfan bara rétt náði upp í kostnað.
Gullplötur – samstarfi lýkur
Ég veitti Egó gullplötur í maí 1983, ári eftir að Breyttir tímar kom út og hálfu ári eftir að Í mynd kom út. Ber að nefna að sala platna á þessum tíma var með þeim hætti að um 90% sölunnar átti sér stað á fyrstu 3–4 mánuðum eftir útgáfudag. Sala beggja platnanna hafði náð að mjatlast í 5.000 eintök (ekki vel yfir eins og segir í blaðaumfjölluninni) og bandið var að búa sig undir að herja aftur á sveitaballamarkaðinn þar sem það malaði gull.
Gullplötuafhendingin var þannig í aðra röndina markaðsleg aðgerð til að styðja við og vekja athygli á bandinu. Þriðja plata Egó kom svo út 1984 en þá var allt samstarf og samlyndi bandsins farið í hund og kött. Bubbi vildi í framhaldinu gera aðra sólóplötu og fékk Safari diskótek til liðs við sig sem útgefanda og okkar samstarfi lauk.

Frá afhendingu gullplatnanna í maí 1983. Fréttin er
úr Tímanum, 121. tbl., blaði 2, 29. maí 1983.
Aðeins um „gróðann“
Hér er samantekt vegna sölu Egó-platnanna og tekjur. Tölurnar eru uppfærðar til núvirðis.
Þarna kemur fram að heildartap Steina hf. vegna þessara útgáfna var 2.038.467 kr. en ágóðahlutur Egó 2.160.000 kr. Enn fremur er vert að veita því athygli að Steinar hf. greiddi einnig höfundagjöld að upphæð 1.968.467 kr. en það eru gjöld fyrir útgáfuna en tekjur fyrir lagahöfunda, sem að langmestu leyti runnu til Bubba Morthens. Þannig fengu hljómsveitarmeðlimir sem einnig voru höfundar laga og texta rúmar fjórar milljónir í tekjur meðan útgáfan tapaði rúmum tveimur milljónum.

Þá skal það og nefnt að með því að standa að þessum útgáfum tryggði útgefandinn, Steinar hf., höfundinum Bubba Morthens ekki einungis höfundarlaun af seldum eintökum heldur einnig margfalt meiri tekjur vegna spilunar og annars opinbers flutnings til langrar framtíðar.
Það má skilja ummæli Bubba Morthens í þættinum Popp- og rokksaga Íslands á þann veg að ekki einungis hafi ég níðst á honum við samningagerð, heldur og hafi hann setið uppi með vonda samninga. Hvorugt er rétt. Enginn einn aðili fékk meiri tekjur út úr samstarfinu en Bubbi Morthens og honum var síðar tryggður góður ágóðahlutur til frambúðar með nýjum samningi. Nýr markaður skapaðist síðan þegar ljóst var að geisladiskar voru að taka yfir og úthýstu vínylplötum í upphafi tíunda áratugarins, eins og sjá má t.d. í skýrslunni Íslenskur tónlistariðnaður – aukin sóknarfæri.
Bubbi Morthens kom svo aftur til mín árið 1989 og bað mig að verða útgefandi sinn á ný eins og ég fer yfir hér fyrir neðan. Er trúverðugt að hann hefði gert það ef sögur hans núna um meintan níðingsskap minn í hans garð og hljómsveitarmeðlima Egó og Utangarðsmanna á árunum 1980–1984 væru sannar?
Aðeins um seinni tíma samskipti
Eins og ég sagði hér fyrir ofan kom Bubbi Morthens aftur til mín árið 1989 og bað mig að verða útgefandi sinn á ný eftir að Safari, Grammið og Geisli, útgáfufyrirtæki hans á árunum 1984–89, höfðu öll farið á hausinn. Samstarf okkar á þessum tíma gaf síðan af sér plöturnar Sögur af Landi, Ég er ogVon, auk GCD-plötunnar. Þess utan vildi Bubbi að ég tæki einnig yfir útgáfuréttinn á þeim plötum sem hann hafði gert fyrir önnur fyrirtæki sem hann hafði gefið út hjá og nú voru gjaldþrota.
Ég gerði því nýjan samning við hann árið 1989 sem tók til allra útgáfna sem ég hafði gefið út með honum og svo allra útgáfna sem aðrir höfðu gefið út með honum. Í þessum samningum fékk Bubbi hærri ágóðahlut en tíðkaðist, auk þess sem ég tók á mig skuldbindingu um endurútgáfu þessa efnis.
Þetta dugði samt ekki til og Bubba vantaði sífellt meiri peninga.

Var hann farinn að biðja um nýjan samning og væna fyrirframgreiðslu árið 1992 þó fyrri samningar væru enn í fullu gildi og ekki uppfylltir. Ég var ekki til í það og í byrjun árs 1993 tilkynnti Bubbi að hann hefði gert nýjan samning við Skífuna.
Þannig var að Bubbi hafði oft talað um að fara erlendis og gera plötu með erlendu tónlistarfólki, Balkan-skagann, Jamaica o.fl. staði. En þetta var bara tal. Ég hafði hins vegar heyrt Ingibjörgu Haraldsdóttur, ljóðskáld og blaðamann, tala um Kúbu og tónlistina þar og ákvað að kanna þann möguleika að Bubbi færi til Havana til að taka upp með þarlendum tónlistarmönnum. Eftir mikið japl, jaml og fuður gekk það eftir og ég stakk upp á því við Bubba að hann færi en tæki með sér Gulla Briem sem var með honum í GCD og Eyþór Gunnarsson sem hann hafði aldrei unnið með. En Bubbi var ekki nægjanlega vel undirbúinn né tilbúinn með lög þegar hann fór í verkefnið. Hann kom til baka með hálfa plötu og því þurftum við að klára upptökurnar á Íslandi. Þetta leiddi til þess að upptökukostnaður varð afar hár og jafngilti að lokum því sem næst tveim plötum. Þegar svo Bubbi ákvað að hlaupa frá samningum við Steina hf. 1993 ákvað ég að nýta mér klásúlu í samningnum sem sagði að ef Bubbi færi fram úr samningsbundnum upptökukostnaði þá bæri hann ábyrgð á því fjárhagslega. Von seldist í tæpum 10.000 eintökum og því átti Bubbi von á vænum ágóðahlut. En þegar umfram upptökukostnaðurinn var dreginn frá var lítið eftir.
Skemmst er frá því að segja að Bubbi varð alveg brjálaður yfir því að ég skyldi dirfast að fara eftir samningnum okkar á milli (sem hann gerði ekki) og hellti sér yfir mig opinberlega.
Nokkrum árum síðar þegar ég tók við sem framkvæmdastjóri tónlistardeildar Skífunnar og seinna Norðurljósa, þá var Bubbi þar á samningi, svo enn lágu leiðir okkar saman. Það hafði gróið ágætlega um heilt á milli okkar og Bubbi vildi ítreka við mig vilja sinn til góðs samstarfs. Hann bauð mér t.d. í veiði í Laxá í Kjós skömmu eftir að ég hóf störf þarna og við áttum notalegan dag saman og áfallalaust samstarf þar til ég hætti hjá Norðurljósum í byrjun árs 2002.
Ég þekkti Bubba Morthens sem hæfileikaríkan tónlistarmann, ágætlega innréttaðan og vel meinandi dreng á tíðum en líka sem sjálfmiðaðan og hvatvísan tækifærissinna. Eftir að ég hætti í útgáfustarfsemi, hafa leiðir okkar nokkrum sinnum legið saman. Ég fór t.d. fyrir nokkrum árum á tónleika hans í Saurbæjarkirkju í Hvalfirði, þar sem hann fagnaði mér með stóru brosi og innilegu faðmlagi og hvatti mig til að kíkja til sín í Kjósina. Þetta ítrekaði hann svo í nokkur skipti þegar við hittumst síðar. Og nú kemur opinber og tilefnislaus árás í sjónvarpsþætti! Er athyglissýkin komin á það stig að hún réttlæti svona ósannindi og níð í minn garð?
Aðeins um þáttinn og RÚV
Eins og fram kemur hér að framan blasir við að þegar Bubbi segir í þættinum Popp- og rokksaga Íslands ...
„Útgefandinn. Hann mokgræddi á okkur, það er bara þannig. Við höfðum ekki tíkall upp úr þessu, skítapening ...,“
... þá er það ekki sannleikanum samkvæmt. Eina markmið Bubba með þessum orðum virðist vera að ata mig óverðskulduðum auri og fullnægja eigin athygl-issýki. Hann staðfesti síðan meiningu sína afdráttarlaust á Facebook og vefmiðlum eftir sýningu þáttanna þar sem hann sagði m.a.: „Niðurstaðan er og verður sú að samningar þínir við Ego og Utangarðsmenn voru gerðir af fyrirtæki með yfirburðaþekkingu á öllum hlutum á meðan við vorum með því

miður enga yfirsýn yfir neitt og algerlega blautir á bakvið eyrun. Þú nýttir þér það. Já, við skrifuðum undir.“
Bubbi Morthens fór með ósannindi í umræddum þætti og spurning af hverju RÚV, sem er framleiðandi þáttanna, lét það óátalið. Bubbi fullyrðir að ég hafi grætt óhemju á honum í upphafi ferils síns. Hið rétta er að að ég studdi einarðlega við bakið á honum á mikilvægasta tíma ferils hans og tók á mig fjárhagslegt tap til að aðstoða hann. Bubbi fullyrðir að ég hafi haft yfirburðaþekkingu og nýtt mér þekkingarleysi hans. Hið rétta er að samningar voru einfaldir og menn skildu alveg að Steinar hf. var að taka mikla fjárhagslega áhættu af útgáfunni og lítil hagnaðarvon var fyrir báða samningsaðila af henni.
Er ég níðingurinn?
Að bera það upp á mig að ég sé níðingur sem nýti mér veiklyndi annarra er gróf persónuárás sem á við engin rök að styðjast. Slíkt hef ég aldrei gert, hvorki í atvinnu minni né lífinu yfirleitt. Lífsviðhorf mitt er þveröfugt við það sem Bubbi vænir mig um og það er á hreinu að hann talar á móti betri vitund þegar hann fullyrðir þetta því hann hefur allt aðra reynslu af samskiptum við mig. Hann gerði ekki minnstu tilraun til að hafa samband ef honum fannst allt í einu áratugum seinna eitthvað óskýrt eða ósanngjarnt í okkar samskiptum og samningum heldur ákvað frekar að hreykja sér fyrir framan þjóðina í sjónvarpsþætti og láta líta út fyrir að þrátt fyrir illa meðferð af minni hálfu og siðferðislega brenglaðan samstarfsmann (mig) hafi hann komist þangað sem hann er. Það vekur upp spurninguna hvert Bubbi Morthens er í raun kominn, maður á sjötugsaldri sem hefur sannarlega markað stærri spor í íslenska tónlistarsögu en flestir, en hefur undanfarin ár verið meira í fréttum fyrir eineltistilburði en góða tónlist.
Þá er ekki síður hægt að setja stórt spurningarmerki við framleiðanda þáttanna Popp- og rokksaga Íslands, Ríkisútvarpið sjálft, fjölmiðil í almannaþágu. Í lögum um Ríkisútvarpið sem lúta að sanngirni í umfjöllun um fólk segir m.a. skýrt að „í starfsháttum sínum skuli Ríkisútvarpið ...“:
„... ábyrgjast að sanngirni og hlutlægni sé gætt í frásögn, túlkun og dagskrárgerð, leitað sé upplýsinga frá báðum eða öllum aðilum og sjónarmið þeirra kynnt sem jafnast ...“ og „sannreyna að heimildir séu réttar og að sanngirni sé gætt í framsetningu og efnistökum.“
Siðareglur starfsmanna RÚV taka mið af þessu, en þar segir m.a. skýrt:
„Starfsfólk sem sinnir umfjöllun um fréttir, fréttatengt efni eða dagskrárgerð sannreynir að heimildir séu réttar og að sanngirni sé gætt í framsetningu og efnistökum. Þetta á sérstaklega við þegar upplýsingar geta verið litaðar af persónulegum hagsmunum eða geta verið til þess fallnar að skaða aðra. Gildir þá einu hvort í hlut eiga einstaklingar, fyrirtæki, samtök, félög eða annað.“
Það blasir því einnig við að lög um Ríkisútvarpið voru þverbrotin í þættinum, svo og siðareglur starfsmanna.
Aðeins að lokum
Hvaða tilgangi þjónaði það að láta Bubba Morthens drulla yfir fyrrum samstarfsmann sinn (á ég að leyfa mér að segja ... velgjörðarmann) án þess að gera minnstu tilraun til að hafa samband við mig til að kanna grundvöll fullyrðinganna? Sanngirni er ítrekuð í lögum og starfsreglum RÚV, en hvernig virkar sanngirnin þegar á reynir? Fengu hrifnæmir starfsmenn RÚV stjörnur í augun þegar Bubbi opnaði munninn – eða glýju sem byrgði þeim dólginn?
